Saturday, August 23, 2008

Sumarið 2008

Margt er búið að bralla í sumar, ég man örugglega ekki eftir öllu hér og nú.
Ég fór austur í júní, með köttinn, Gunnar Tjörva og Hauk Smára meðferðis. Stoppaði í nokkra daga eða óvenjulega lengi og fór svo ein heim aftur með köttinn. Ingi og Gunnar hafa verið að vinna fyrir austan í allt sumar við sundlaugarbygginguna. Svo fór ég í 153 km gönguferð í Skotlandi í byrjun júlí. Var það 10 daga ferð, en 7 á göngu. Gekk mjög vel og var afar gaman að hafa tekið þátt í þessu. Við gengum frá Glasgow til Fort William eftir sveitavegum og göngustígum. Ása tók að sér að gæta húss og kattar á meðan, enda að vinna hér fyrir norðan hluta sumarsins. Svo var verið eitthvað að gaufast hér heima og í vinnu. Um verslunarmannahelgina komu Gunnar og Ingi heim. Katrín var komin heim áður, eftir vel heppnaða ferð til Tenerife með Guðrúnu, pabba hennar og fjölskyldu. Við Ingi og Ása fórum nokkrar ferðir um helgina þá. Yfir Siglufjarðarskarð á Subaru. Inn í Kotagil. Þau í gönguferð á Gilsbunguna, en við Ingi svo í gönguferð um gamla veginn fyrir Ólafsfjarðarmúla og til baka gengum við í gegnum göngin. Svo fékk Katrín vini sína í heimsókn yfir helgina. Mikið um að vera á þessu heimili þá. Ingi fór svo austur en Ása suður til Reykjavíkur. Ég skrapp svo austur um miðjan ágúst til að sækja Gunnar Tjörva. Gekk mjög vel. Við náðum þá að fara í fjölskyldugönguferð frá veginum upp af Smyrlabjörgum og eftir línuvegi niður í Borgarhöfn. Þar var okkur Huldu skutlað aftur uppeftir til að ná í bílana, meðan aðrir biðu á Vagnsstöðum. Skólinn hjá Gunnari byrjar svo um helgina. Setning kl. 17:00 á sunnudag. Ingi kemur vonandi fljótlega eftir helgi, en mikið er búið að vera að steypa í sundlauginni undanfarna daga.

Sunday, August 19, 2007

Margt hefur drifið á dagana

Ég fór á móti Huldu í Borgarfjörðinn um síðustu helgi. Hún kom að austan og Gísli Skarp.með henni í heimsókn til Laugu og Guðna í Reykholt, Borg. þar sem þau voru í sumarbústað.
Við dvöldum þar svo í góðu yfirlæti þar til um hádegi á sunnudag en þá héldum við norður á bóginn. Umferðin var svo mikil að við skutumst af og til úr þjóðleið til að losna við hana. Byrjuðum í Baulu í hamborgara. Við fórum aðeins og skoðuðum Glanna og svo skutumst við út á Strandir í nokkrar mínútur. Fórum að Hvammstanga og upp um alla veggi þar. Meira að segja í sjoppuna. Svo var Hulda hér í Lerkihlíðinni með Gísla meðan ég brá mér til vinnu. Við fórum svo nokkra hringi í firðinum seinni part dags. Svo bara fóru þau til Bibbu. Á föstudag kíkti ég í garðinn á Hellulandi til Sigga, hann var að taka upp rófur og vökva þær sem hann forsáði ekki. Ekki mikill vöxtur í þessu vegna vatnsskorts. Didda kom með krakkana á föstudag, þau voru svo í afmæli á laugardag. Ég stundaði Landbúnaðarsýninguna af miklum móð, fór meira að segja í nýja fjósið í Birkihlíð og þáði gómsætar kræsingar.
Ingi og Gunnar Tjörvi komu svo í gærkvöldi. Halldór vinur Gunnars kom að sunnan til að fá að hitta hann. Hann svaf svo hér í nótt, ásamt Diddu. Svo er bara frábært veður í dag. Ég sló garðinn í gær svo nú get ég velt mér í honum í dag.

Wednesday, August 8, 2007

Verslunarmannahelgin 2007

Ég reif Inga upp í ferðalag um kl. hálf þrjú á föstudegi, var búin að skreppa í vinnuna til hádegis, böðla því af sem þurfti að gera. Klippti hann nú samt fyrst og sleit neðan af nýjum buxum og pússlaði saman aftur. Svo þrumuðum við austur um land til Hornafjarðar. Ingi hafði komið ásamt Gunnari Tjörva daginn áður frá Uxahryggjum þar sem þeir eru við brúargerð svo ekki var nú hvíldarfriðurinn mikill. En sem sagt gott veður og góð færð :-) svo var bíllinn aldeilis í stuði líka. Við stoppuðum ekki mikið á leiðinni, þó fengum við okkur nú að borða aðeins við Mývatn. Keyptum súrmjólk og Prince Polo var með í ferð líka. Svo harðfiskur og smjör. Skelltum okkur svo aðeins í sjoppu um kvöldmatinn á Egilsstöðum og fengum okkur pylsu og ís. Skoðuðum tankinn sem ekkert er farið að gera meira með síðan þeir hættu í sumar. Héldum svo bara áfram og yfir Öxi og svo bara þessa venjulegu leið til Hornafjarðar, en það var aðeins búið að súlda á okkur á leiðinni. Ekki þó neitt til ama.
Við lentum á Stapa fyrir kl. 10 um kvöldið og hittum þar fyrir pabba, mömmu, Jónsa og Ranna.
Hin voru á setningarathöfn Unglingalandsmótsins.
Svo fórum við nú bara í okkar hús að sofa en höfðum nælt okkur í mjólk á Stapa ásamt því að fá að borða og drekka eftir okkar vilja.
Ég labbaði svo inn að Stapa morguninn eftir í hvílíkri bongóblíðu að ekki verður sagt með fleiri orðum. Fór svo með þeim út á Höfn til að fylgjast með Bjössa og bara öllum á mótinu.
Svona gekk þetta daginn eftir líka maður var úti á Höfn allan daginn. Ég tók þátt í Hornafjarðarmannanum. Mót með 250 þátttakendum. Lenti í 27 manna úrslitum og féll svo út í fyrstu umferð þar. Ósköp var maður nú búinn að hitta margt fólk þarna sem maður þekkti og hefur ekki séð í mörg ár margt af því.
Mótinu lauk með flugeldasýningu. Pabbi, mamma og Guðni fóru með mér út á Höfn. Það var búið að vera mikið fjör þar fyrr um kvöld bæði þetta og næstu á undan. Fór allt mjög vel fram.
Við brunuðum svo bara beinustu leið heim aftur, enda við að fara norður strax daginn eftir.
Mánudag fórum við inn að Stapa og fengum okkur morgunmat eftir að Gísli var búinn að ræsa okkur í hann. Fórum svo aftur út í hverfi og kláruðum að ganga frá og um hádegi fórum við af stað heim. Við fengum aftur blíðskaparveður. Stoppuðum uppi á Fossárdal og fengum okkur samloku og ég fékk mér bjór :-)þar sem aðeins var smá lögg af appelsíni handa bílstjóranum.
Rúmlega hádegi á mánudegi og bjór. En hann var svalandi og ekki stór svo þetta var nú bara gaman. Við höfðum hvorugt farið inn á Fossárdal fyrr.
Næst keyrðum við inn Fljótsdal og fórum að Skriðuklaustri. Skoðuðum safnið og fórum aftur. Þar var svo margt fólk í kaffi að við nenntum ekki að doka eftir að komast að. Fórum bara aftur að Egilsstöðum og keyptum bensín og smá nesti og héldum svo heim. Á bensínstöðinni hittum við Effu sem er í sumarbústað að Einarsstöðum.
Vorum komin á Akureyri rétt upp úr 7 um kvöldið og fórum og keyptum okkur mat.
Brunuðum svo heim. Hringdi á leiðinni í systur Sigurbjörgu og Hjörleif sem voru komin úr gönguferðinni sem þau voru í um suðurhluta landsins, gengu á Sveinstind og miklu víðar og gekk vel og voru komin á leið heim. Gunnar Tjörvi beið heima allan tímann og missti af þessu öllu með okkur foreldrum sínum.

Wednesday, August 1, 2007

Fimmtudagur fyrir Verslunarmannahelgi

Jæja, maður er að æsa sig upp fyrir helgina. Kötturinn vakti mig kl. 5 svo ég fór fyrst að lesa, svo bara ryksuga ! Það er hægt þegar maður er einn heima í einbýlishúsi!
Nú er maður bara að fara að undirbúa morgunmat og sturtu, les kannski aðeins meira áður en ég fer í vinnuna. Líklega verður það hvort sem er þannig að maður sefur á milli þvottavéla í kvöld. Þeir ætla að koma heim í dag Ingi og Gunnar og eiga eflaust eitthvað óhreint í fórum sínum. Annars er Gunnar búinn að fara óvenju oft í sturtu undanfarið, segir hann.
Fólk er að tínast burt úr bænum í dag, það sem ætlar í helgarferð. Aðrir sem ég þekki til fara á laugardag. Sjálf veit ég ekkert hvað ég geri. Það ræðst af veðri og öðrum.
Þangað til næst, vinna, sofa, éta og svo sumarfrí.....

Monday, July 30, 2007

Mánudagur

Maður var að vinna í dag og svo fór ég í Brennigerði til að ná upp krossarfanum af gulrótunum.
Það er hræðilega þurrt í garðinum. Bara kögglar þar sem ég stakk upp sjálf í apríl en alveg merkilegt hvað gulræturnar eru samt á góðri leið með að verða eitthvað í þeim garði.
Svo fór ég að svipast um eftir Álfi og Möggu og þau voru þá að uppræta njóla. Búin að vera með litla Stefán í tveggja daga fóstri en hann hafði svo skroppið frá með foreldrum sínum svo ég sá hann ekki.

Svo var ég nú að spjalla í símann og horfa á sjónvarpið.
Gunnar hringdi í mig í dag og þá voru þeir búnir að steypa seinni stöpulinn og nú á bara að fara að byrja á brúargólfinu. Þeir ætla að koma heim á fimmtudag feðgarnir.

Það var 17 stiga hiti úti á torgi í dag og í garðinum var logn og blíða, en sem betur fer sólarlaust, annars hefði ég nú skorpnað.

Friday, July 27, 2007

Föstudagur

Kominn föstudagur og börnin í Reiðskóla Ingimars að fara framhjá.22 hestar.
Frekar svalt í dag og sólarlaust.
Nú er maður spenntur að vita hvernig gengur á Uxahryggjaleiðinni. Ekkert heyrist frá þeim svo þeir eru að hamast að vinna, ef ég þekki það rétt.
Ég þarf að kíkja á garðinn í dag og svo fer maður að líta eftir berjum. Það ku vera svo góð berjaspretta á Íslandi í ár þrátt fyrir alla þessa þurrka.

Thursday, July 26, 2007

Fann það aftur!

Mér til mikillar huggunar fann ég bloggið. Hélt ég kynni ekki að fara inn í það aftur.